Að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga, verður félagið fyrir nokkru fjárhagstjóni vegna þeirrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að heimila ekki kaup Haga á BT raftækjaversluninni. Félagið mun reka verslanirnar áfram fram í júní.

Í samningi um kaupin, sem áttu sér stað fyrr í vetur, var fyrirvari um samþykki Samkeppnieftirlitsins. Þar sem það gerir athugasemd við kaupin ganga þau til baka. Hagar munu reka BT verslanirnar fram í júní á meðan að skiptastjóri, Helgi Jóhannesson hrl. gerir tilraun til að selja félagið. Hagar munu bera ábyrgð á rekstrinum á meðan og hafa af því tekjur og kostnað að sögn Finns.

,,Það er auðvitað eitthvert fjárhagstjón hjá okkur. Við erum búnir að verða fyrir einhverjum kostnaði en það er eitthvað sem við skoðum í rólegheitunum. Okkur finnst þetta ótrúleg niðurstaða en þetta er skoðun Samkeppniseftirlitsins og við verðum að fara eftir því. Við munum hins vegar skoða okkar rétt.”

- Hafið þið náð að fella rekstur BT inn í ykkar rekstur?

,,Þetta er sjálfstæð eining engu að síður. Allt sem lítur að bókhaldi, skrifstofu, stjórnun og þess háttar hefur fallið inn í okkar rekstur. Það var í sjálfu sér ekki flókið að samhæfa þetta og það var ekki flókið að slíta það frá.”

- Það var hluti af samkomulaginu á sínum tíma að þið tóku yfir samninga við 40 starfsmenn. Hvað verður um þá. Fara þeim með félaginu yfir?

,,Þeir starfsmenn sem voru í BT áttu ákveðnar skuldbindingar sem ég geri ráð fyrir að fari til baka. Við stöndum auðvitað við það sem að okkur snýr í þessu.”

- Hafið þið haft útlagðan kostnað af þessu sem þið muni hafa endurkröfurétt á?

,,Ef einhver starfsmaður hefur hætt á þessum tíma og fengið uppgert orlof sem hann hefur unnið inn hjá fyrri vinnuveitanda þá er það skuldbinding sem við tókum á okkur og greiddum. Það er bara staðan eins og hún er.”