Finnur Árnason rekstrarhagfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Í tilkynningu segir að hann hafi þegar tekið til starfa.

Finnur er fæddur árið 1958. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hann lauk B. Sc. námi í efnafræði við Háskóla Íslands árið 1985 og Fil. Cand. prófi í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Gautaborg árið 1988.

Í tilkynningunni segir að Finnur hafi unnið fjölbreytt störf til sjávar og sveita og komið víða að stjórn og rekstri fyrirtækja, svo sem í sútun og harðviðarþurrkun auk þess sem Finnur var um árabil framleiðslustjóri hjá Slippfélaginu, málningarverksmiðju.

Finnur starfaði um þrettán ára skeið sem fjárfestingarstjóri hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og sat í stjórnum fjölmargra fyrirtækja f.h. sjóðsins, s.s. Sjávarleðurs, Genís, Mentis Cura, Primex og fleiri.

Hann hefur undanfarin misseri starfað við sérfræðiráðgjöf hjá ráðgjafarfyrirtækinu Kontakt ehf. í verkefnum er lúta að leit að litlum iðnfyrirtækjum á Norðurlöndum sem fýsilegt geti verið að kaupa og flytja til Íslands. Finnur er þriggja barna faðir, kvæntur Maríu H. Maack, líffræðingi og umhverfisstjóra hjá Íslenskri Nýorku.