Skoðunarfyrirtækið Frumherji átti að greiða 395 milljónir í skatta samkvæmt endurákvörðun ríkisskattstjóra. Ákvörðunin var tekin í kjölfar svokallaðs Toyota-dóms sem féll í Hæstarétti fyrir að verða ári síðan. Óttast var að endurákvörðunin gæti haft verulega neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu Frumherja, jafnvel getu fyrirtækisins til áframhaldandi reksturs. Af þeim sökum var fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins hraðað. Hún endaði með því að Íslandsbanki eignaðist 80% hlut í félaginu á móti framkvæmdastjóra þess og stjórnarformanni.

Toyota-dómurinn snerist í stuttu máli um það að vaxtakostnaður vegna öfugs samruna fyrirtækja sé ekki frádráttarbær frá skatti. Málið fjallaði um kaup félagsins Bergey á P. Samúelsson, eiganda Toyota á Íslandi. P. Samúelsson tók síðan Bergey yfir ásamt skuldum og eignum og taldi vaxtagjöldin af láninu frádráttarbær frá skatti. Þetta átti jafnframt við um Frumherja. Árið 2007 keypti félagið Bil ehf rekstur Frumherja. Frumherji tók síðan félagið yfir en greiddi af lánum þess.

Einn af helstu hluthöfum Bils var Finnur Ingólfsson, fjárfestir og fyrrverandi ráðherra. Hann segist í samtali við Viðskiptablaðið ósáttur við að eina stundina hafi öfugur samruni fyrirtækja verið leyfður en hina ekki. „Það er ótrúlegt að þetta skuli hafa verið með þessum hætti og aldrei gerð athugasemd við það hvernig að málum var staðið,“ segir hann. Finnur ákvað að taka ekki þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu Frumherja og á nú ekkert í félaginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .