„Ég get ekki hugsað mér neitt skemmtilegra til að taka mér fyrir hendur,“ sagði Finnur í samtali við Viðskiptablaðið eftir að hann tók við starfi forstjóra Nýherja af Þórði Sverrissyni á dögunum. Finnur hefur verið aðstoðarforstjóri Nýherja frá nóvember 2012.

Finnur er giftur Sigríði Þorgeirsdóttur lögfræðingi og starfar hún sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs lögfræðistofunnar LOGOS. Saman eiga þau tvo syni, Óttar, 12 ára og Dag, 4 ára. Fjölskyldan bjó í rúm fimm ár í Vestur-Virginíu, Washington DC og Atlanta í Bandaríkjunum og að sögn Finns lítur fjölskyldan á Bandaríkin sem sitt annað heimaland.

Aðspurður um áhugamál segist Finnur hafa mjög gaman af því að ferðast um landið og veiða. „Ég veit líklega fátt skemmtilegra en að veiða silung á flugu, sjóbleikju eða urriða, helst norður í landi og því fjær alfaraleið því betra. Fjölskyldan deilir þessu áhugamáli,“ segir Finnur. Útivistin heillar Finn og hefur hann auk veiðiáhugans sérstakan áhuga á fjallaskíðaferðum.

Nánar er fjallað um Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .