Arion banki mun á næstu dögum verða fyrstur stóru viðskiptabankanna til að auglýsa stöðu bankastjóra lausa til umsóknar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Ráðningarsamningur Finns Sveinbjörnssonar bankastjóra er tímabundinn og rennur út næstkomandi áramót. Finnur hefur tilkynnt stjórn Arion banka og skilanefnd Kaupþings banka að hann muni ekki sækjast eftir starfinu að loknum ráðningartíma hans. Starfið verður því auglýst laust til umsóknar.

Það er mat stjórnar Arion banka og skilanefndar Kaupþings að með því að hafa þennan háttinn á við ráðningu nýs bankastjóra aukist traust viðskiptavina og kröfuhafa á bankanum og starfsemi hans.

„Það var ljóst þegar ég tók við bankastjórastarfinu fyrir rúmlega einu ári að hér yrði um tímabundið verkefni að ræða. Á þessu eina ári hefur bankinn lagað sig að nýjum veruleika eftir bankahrunið og tekist á við mörg flókin, erfið og umdeild verkefni. Stutt er síðan nýtt nafn bankans og stefnumótun voru kynnt og í dag fékkst langþráð niðurstaða um framtíðareignarhald bankans. Á þessum tímamótum er eðlilegt að nýr bankastjóri verði ráðinn," er haft eftir Finni Sveinbjörnssyni í tilkynningu frá bankanum.