„Ég held að það sé eðlilegt að einfalda kerfið eins og hægt er,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, um þær breytingar sem boðaðar hafa verið í nýju fjárlagafrumvarpi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti frumvarpið í morgun.

Viðskiptablaðið ræddi við Finn áður en frumvarpið lá fyrir.

Í fjárlagafrumvarpinu eru boðaðar þær breytingar sem eiga að taka gildi á Nýársdag á næsta ári að hærra þrep virðisaukaskatts lækkar úr 25,5% í 24% og lægra þrep skattsins hækka úr 7% í 12% auk þess sem virðisaukaskattstofn verður breikkaður. Samhliða verða almenn vörugjöld á ýmsar heimilisvörur felld niður. Eftir að fjárlagafrumvarpið var kynnt boðaði Toyota á Íslandi lækkun á listaverði nýrra bíla.

Hann segir mikilvægt að halda því til haga að verið sé að tala um niðurfellingu á vörugjöldum samhliða breytingum á virðisaukaskattkerfinu.

„Það sem skiptir mestu máli er að skattlagning aukist ekki með þessu og miðað við yfirlýsingar fjármálaráðherra er ekki gert ráð fyrir aukinni skattheimtu heldur er þetta í rauninni millifærsla innan innkaupakörfunnar. Hærra þrepið er of hátt, 25,5%. Það er bara of hátt. Það er eðlilegt að það lækki. Ef vörugjöld eru tekin út og á móti kemur lækkun á efra þrepi og einföldun, þá held ég að þetta sé góð breyting,“ segir Finnur.

Lesa má ítarlegt viðtal við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .