*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 6. september 2014 09:56

Finnur í Högum: Sérhagsmunir ráða í landbúnaðarkerfinu

Forstjóri Haga er gagnrýninn á núverandi landbúnaðarkerfi. Hann segir það óhagkvæmt fyrir neytendur sem borgi brúsann.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Landbúnaðarkerfið hér á landi er svo ógagnsætt fyrir neytendur að þeir átta sig ekki á því hvað þær vörur sem þeir kaupa kosta. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að í landbúnaðarmálum séu fáir sem njóti. Kerfinu sé haldið uppi á kostnað heimila landsins. Hann telur heimilin búin að borga marga milljarða í kerfið áður en það fer út í búð.

„Miðað við tölur frá árinu 2011 var verðmætasköpun að frádregnum tilfærslum frá neytendum og beinum opinberum styrkjum 1.432 milljónir króna. Það er mjög lítil verðmætasköpun í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Vinnuþátturinn í íslenskum landbúnaði er því ekki að skapa verðmæti nema sem nemur kannski 60 til 70 þúsund krónum á mánuði. Það er þriðjungur af lágmarkslaunum sem er verðmætasköpunin,“ segir Finnur.

Hann spyr sig hvað sé verði að verja með núverandi landbúnaðarkerfi.

„Neytandinn er að henda peningum í stórum stíl inn í kerfið. Hann er að kaupa vöruna á dýru verði til baka en eftir situr framleiðandi, bóndinn sem fær þriðjung af lágmarkslaunum fyrir stritið,“ segir Finnur.

Íslenskir ráðamenn, og þá kannski sérstaklega forsætisráðherra, hafa haldið því fram að sumir erlendir vöruflokkar séu lakari að gæðum og séu jafnvel skaðlegir til neyslu. Er það ykkar reynsla og telur þú það vera rétt?

„Nei, ég held að margir erlendir bændur séu jafn vandaðir og þeir bestu íslensku. Ég held að þeir framleiði vöru sem stenst að öllu leyti samanburð á gæðum við það allra besta á íslandi. Eftirlitsaðilum í þessum löndum þar sem þessi vara er framleidd er fulltreystandi til að fara eftir lögum og reglum þannig að ég held að þegar upp er staðið er hægt að fá hér til landsins frábærar vörur sem er jafngóð því besta hér og mun ekki valda neinum skaða,“ segir Finnur.

Þannig að þú gefur lítið fyrir það sem forsætisráðherra hefur sagt um málið?

„Það er ekki hægt að taka þessi ummæli alvarlega. Að mínu mati er þetta þvæla,“ segir Finnur. „Ég held að það sem ræður, hvort sem er í þessu eða öðru, eru sérhagsmunir en ekki almannahagsmunir.“

Lesa má viðtalið við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Hagar Finnur Árnason