Finnur Ingólfsson, fjárfestir og fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri segir að yfirtaka Skilanefndar Landsbankans á hlut Langflugs í Icelandair Group í morgun hafi ekki komið sér á óvart.

Skilanefnd Landsbankans leysti í morgun til sín tæplega 24% hlut Langflugs í Icelandair Group en félagið var að mestu í eigu Finns.

„Maður átti von á því að þetta myndi gerast. Þetta kemur í raun í framhaldi af því sem gerðist í síðustu viku,“ segir Finnur í samtali við Viðskiptablaðið og vísar þar til þess að í síðustu viku leysti Íslandsbanki til sín tæplega 42% hlutafjár í Icelandair Group.

„Þegar verð eignarinnar fellur um mörg hundruð prósent og skuldirnar margfaldast þá verður ekki hjá þessu komist,“ segir Finnur.

„Þetta er afleiðingin af því sem gerst hefur í viðskiptalífinu hér á landi.“

Aðspurður um eigið fjárhagslegt tjón svarar Finnur því til að þegar fjármagn tapast hljótist alltaf einhver skaði af því. Hann er þó ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir félagið.