Finnur Ingólfsson fyrrverandi forstjóri VÍS, ráðherra og seðlabankastjóri tekur fram að hann viti ekki til þess að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið leppur annarra aðila í einkavæðingunni á Búnaðarbankanum og segir í samtali við Vísi : „Finnst þér líklegt að alþjóðlegur banki standi í slíku?“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vinnur að þingsályktunartillögu um rannsókn á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á Búnaðarbankanum árið 2003. Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, lagði til í nefndinni að þingið myndi skipa rannsóknarnefnd vegna nýrra upplýsinga sem honum hefði borist, en lengi hafa verið uppi getgátur um að bankinn hafi í raun verið leppur. Hauck & Aufhäuser bankinn seldi hlut sinn á næstu tveimur árum til aðila innan S-hópsins svokallaða.

Eins og væri að kaupa ísbúð

Samkvæmt frétt Vísi um málið er haft eftir fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Sigurjóni Þ. Árnasyni en hann var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Búnaðarbankans þegar einkavæðingin átti sér stað að hann hefði litið svo á að þýski bankinn hefði verið fulltrúi fyrir aðra aðila.

Það gerði hann eftir að hafa fundað með fulltrúa hans: „…maður hitti hann og maður upplifði það að hann hefði alveg eins getað hafa verið að kaupa ísbúð, hann vissi ekkert hvað hann var að kaupa. Það var algjörlega sénslaust að hann hafi verið að leggja svona mikla peninga undir“ er þar haft eftir Sigurjóni.