Finnur Oddsson mun láta af störfum sem forstjóri Origo í sumar og færa sig um set í forstjórastól Haga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum.

Tilkynnt var um það í liðinni viku að Finnur Árnason myndi láta af störfum sem forstjóri Haga og að Guðmundur Marteinsson myndi sömuleiðis hætta sem framkvæmdastjóri Bónus. Eftirmaður Árnasonar hefur nú verið fundinn.

„Það er tvennt sem sérstaklega mótar umhverfi smásölu á okkar tímum, annarsvegar hraðar breytingar á hegðun neytenda og hinsvegar tækni.  Hvoru tveggja eru sérstök áhugasvið hjá mér. Það eru þvi forréttindi að fá, í samstarfi við framúrskarandi hóp starfsfólks hjá Högum, að móta starfsemi og framtíð þessa sögufræga forystufyrirtækis i smásölu á Íslandi,“ er haft eftir Oddssyni í tilkynningunni.

„Um allan heim erum við að upplifa nýja tíma í verslun þar sem samfélagslegir þættir og tækniframfarir krefjast frumkvæðis og nýrrar nálgunar í verslun og viðskiptum. Við erum sérlega ánægð að hafa fengið Finn Oddsson til liðs við öflugt teymi hjá Högum og teljum að reynsla hans af stefnumótun og rekstri í tæknigeiranum síðastliðin ár muni nýtast félaginu vel á þeim áhugaverðu tímum sem framundan eru,“ er haft eftir Ernu Gísladóttur, stjórnarformanni Haga, í tilkynningunni.