Finnur Árnason, forstjóri Haga, var með tæplega 2,9 milljóna króna launa á síðasta ári eða 34,4 milljónir króna allt árið í fyrra. Við reglubundin laun bættust kaupaukagreiðslur. Þær námu 35,3 milljónum króna fyrir allt síðasta ár og skilaði því að laun Finns urðu rúmlega tvöfalt hærri eða 5,8 milljónir króna á mánuði. Þetta er undanskilið lífeyrisgreiðslum til Finns og hlutabréfaeign hans.

Fram kemur í ársreikningi Haga sem birtur var í síðustu viku að laun Finns hækkuðu um 3,3% á milli ára en kaupaukagreiðslurnar um 24,7%. Síðasttöldu greiðslurnar voru eins og sést á reikningnum hærri hjá Finni í fyrra en laun hans.

Hagnaður Haga á síðasta ári nam um fjórum milljörðum króna í fyrra. Það var milljarði meira en á þarsíðasta ári.

Bónus-forstjóri þénar ágætlega

Þá kemur fram í ársreikningnum að laun Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónuss,  námu 25,2 milljónum króna allt síðasta ár eða sem nemur 2,1 milljón króna á mánuði. Kaupaukagreiðslur hans voru hins vegar talsvert hærri eða 35,3 milljónir króna. Það skilaði því að heildarlaun hans fyrir allt síðasta ár fóru í 60,5 milljónir króna. Ef því er dreift niður á 12 mánuði þá gerir það fimm milljóna króna mánaðarlaun.

Í ársreikningnum kemur fram að heildarlaun sex lykilstjórnenda Haga námu samtals 138,3 milljónum króna borið saman við 133,1 milljón á fyrra rekstrarári. Þetta jafngildti 3,98% launahækkun á milli ára. Kaupaukagreiðslur til sömu einstaklinga námu 100,6 milljónum króna í fyrra sem var 18,9% hækkun á milli ára.