Finnur Árnason var á dögunum kjörinn stjórnarformaður raftækjasölunnar TT3, móðurfélags Ormssonar og SRX. Dr. Edda Blumenstein, framkvæmdastjóri hjá Byko, tekur einnig sæti í stjórninni en ásamt þeim verður Ingvi Týr Tómasson, einn af aðaleigendum félagsins og stofnandi Strax.

TT3 var stofnað í kringum kaup raftækjaheildverslunarinnar SRX á Ormsson í sumar. Ráðgert er að sameinað félag velti sex milljörðum króna á ári með um 20% markaðshlutdeild, en starfsmennirnir verða um sextíu.

Sjá einnig: Verður ein stærsta raftækjasala landsins

Finnur hætti sem forstjóri Haga vorið 2020 eftir fimmtán ára starf. Þetta er annað stóra verkefnið sem hann tekur að sér síðan þá en síðastliðið vor var hann kosinn stjórnarformaður Nýja Landspítalans (NLSH).

Finnur segir í samtali við Viðskiptablaðið að verkefnið hjá TT3 sé spennandi og mikið af tækifærum sem fyrirtækið standi frammi fyrir.  Spurður um hvernig síðasta ár hafi verið, segir Finnur að hann hafi verið ákveðinn í að hægja á sér eftir langan forstjóraferil hjá Högum. „Eftir langa vertíð var gott að horfa yfir farinn veg og átta sig á hvað maður vill gera.“