„Það eru dæmi þess að órekstrarhæfum fyrirtækjum hafi verið haldið gangandi of lengi, sem skapar ranga hvata í rekstri og skemmir umhverfi annarra lífvænlegri fyrirtækja,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs í viðtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um það hvort að ekki sé allt of lítið um það að fyrirtæki hafi fengið að fara í þrot og hvort kapítalisminn hafi í raun fengið að virka eins og hann á að virka.

Í Viðskiptablaðinu er að finna ítarlegt viðtal við Finn stöðuna í atvinnulífinu og efnahagskerfinu, rof á trausti milli stjórnvalda og atvinnulífsins, óvandaða löggjöf og loks stöðu Viðskiptaráðs sem um tíma virtist ekki beysin.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

„Okkur var hinsvegar vandi á höndum þegar þriðjungur íslenskra fyrirtækja varð tæknilega gjaldþrota á einni nóttu í október 2008,“ segir Finnur.

„Hefðu fleiri átt að fara í þrot og hraðar? Líklega. Hefði hagkerfið þolað fjöldagjaldþrot með þeim áhrifum á eignaverð sem það fæli í sér? Því get ég ómögulega svarað en treysti á þeir sem ráða för í fyrirtækjum sem þannig er fyrir komið, kröfuhafar, kunni fótum sínum forráð.“

Finnur segir að núverandi staða sýni þó að margt hefði mátt gera öðruvísi og þá horfi hann fyrst og fremst til þess hagræna tjóns sem verður þegar fyrirtæki vita hvorki hvað þau eiga eða skulda.

„Þau verða fáum til gagns, í dvala sem eingöngu er hægt að rjúfa með hefðbundinni gjaldþrotameðferð eða meðhöndlun skulda sem gerir fyrirtækið rekstrarhæft,“ segir Finnur.

„Núna skiptir höfuðmáli að lífvænlegum fyrirtækjum verði sem allra fyrst komið í hendur framtíðareigenda en í því sambandi er rétt að ítreka að bankar falla ekki í þann flokk. Þau fyrirtæki ekki eiga sér lífsvon þarf að setja í þrot. Ég er sammála því að það ferli hefur gengið of hægt.“