Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að sú hugmynd að sameina Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð sé ekki ný af nálinni.

Eins og fram kom fyrir stundu fór Vilmundur Jósefsson, starfandi formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), þess á leit  við Viðskiptaráð Íslands í dag að teknar yrðu upp viðræður um sameiningu samtakanna. Í bréfi sem Vilmundur sendi Viðskiptaráði kemur fram að markmið slíkra breytinga væri að efla samtök atvinnurekenda, auka skilvirkni í rekstri og virkja betur kraft og frumkvæði atvinnurekenda til beinnar þátttöku í endurreisn atvinnulífsins.

„Atvinnulífið sér fram á ýmsar áskoranir á næstunni og nauðsynlegt að menn taki höndum saman í að verja atvinnulífið,“ segir Finnur í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að ekkert hafi verið ákveðið enn, viðræðurnar komi af frumkvæði SA en í því ástandi sem nú ríkir í atvinnulífinu sé mikilvægast að hagsmunasamtök starfi saman.

„Hlutverk Viðskiptaráðs að verja atvinnulífið í heild og að sjálfsögðu verða allar leiðir til þess skoðaðar af öllum áhuga, hvort sem er með samstarfi eða sameiningu,“ segir Finnur.