*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 5. desember 2011 17:08

Finnur Oddsson: Skilaboð til fjárfesta ruglingsleg

Stjórnarflokkarnir hafa ólík sjónarmið til erlendrar fjárfestingar. Ólíklegt að þau virki hvetjandi, segir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Ritstjórn
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Skeytasendingar milli ráðherra ríkisstjórnarinnar síðustu daga koma verulega á óvart. Þær endurspegla mjög ólíka afstöðu til þessa grundvallarsmáls. Gagnvart erlendum fjárfestum hljóta skilaboðin að vera ruglingsleg, í besta falli, og ólíklegt að þau virki hvetjandi," segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Viðskiptaráð og Íslandsstofa standa fyrir morgunverðarfundi þar sem fjallað verður um áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á endurreisn íslensks hagkerfis og efnahagsþróun til framtíðar.

Yfirskrift fundarins er: Arðrán eða ávinningur? Bein erlend fjárfesting og áhrif á endurreisn

Á meðal ræðumanna er Carlos Bronzatto, framkvæmdastjóri World Association of Investment Promotion Agencies (WAIPA), sem er ráðgefandi við stefnumótun ríkja á sviði erlendra fjárfestinga. Á fundinum mun Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, kynna tillögur starfshóps um stefnu stjórnvalda varðandi beina erlenda fjárfestingu hér á landi.

„Það er almennt viðurkennt að erlend fjárfesting er einn af mikilvægu drifkröftum endurreisnar hagkerfisins og og kemur í raun fram með skýrum hætti í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna,“ segir Finnur.