*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 6. maí 2020 11:33

Finnur og Guðmundur fá um 350 milljónir

Starfslok forstjóra Haga og framkvæmdastjóra Bónus þýða áframhaldandi greiðslur vegna ákvæða í ráðningarsamningum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Afsögn Finns Árnasonar forstjóra Haga og Guðmundar Marteinssonar framkvæmdastjóra dótturfélagsins Bónus þýðir að Hagar þurfa að gjaldfæra hjá sér yfir 300 milljóna króna einskiptiskostnað að því er Fréttablaðið greinir frá.

Báðir höfðu þeir ákvæði um það í ráðningarsamningum sínum að greiða þurfi uppsagnarfresti þeirra hvort heldur sem þeir segðu upp sjálfir eða yrði sagt upp. Guðmundur er með þriggja ára uppsagnarfrest en Finnur til eins árs.

Í Tekjublaði Frjálsrar verslunar kom fram að Finnur hefði verið með ríflega sex milljónir króna á mánuði eða samtals 72,7 milljónir á síðasta rekstrarári félagsins svo kostnaðurinn af uppsögn hans ætti að nema hátt í 100 milljónum nú.

Guðmundur er svo með um 5 milljónir á mánuði, svo til þriggja ára má áætla að kostnaður af uppsögn hans nemi um 250 milljónum, svo samtals verður upphæðin eflaust um 350 milljónir.