Hópur fjárfesta hefur áform um að kaupa allan 67% hlut eignaumsýslufélagsins ALMC í Straumi fjárfestingarbanka. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Finnur Reyr Stefánsson og Tómas Kristjánsson, eigendur fjárfestingarfélagsins Siglu, leiði fjárfestahópinn. Viðræður munu langt komnar. Í blaðinu segir að mögulegt kaupverð yrði umtalsvert lægra en bókfært eiginfjárvirði. Eigið fé bankans nam undir lok síðasta árs tæpum tveimur milljörðum króna og virði 67% eignarhlutar því 1,3 milljarðar.

Þeir Finnur og Tómas eru í gegnum Siglu næst stærstu hluthafar fasteignafélagsins Regins með 8,6% hlut. Þá situr Tómas í stjórnum félaga á borð við Regin, Sjóvá og Senu. Finnur sat í stjórn Straums árin 2011 til 2013. Kona hans er Steinunn Jónsdóttir, dóttir Jóns Helga Guðmundssonar í Byko. Hún og Lilja Pálmadóttir gáfu íbúum Hofsóss sundlaug árið 2007. Þau Finnur og Steinunn eru á meðal auðugustu hjóna landsins.

Í gær greindi Morgunblaðið frá því að óformlegar viðræður hafi átt sér stað um samruna Straums og MP banka á undanförnum vikum. Blaðið segir Skúla Mogensen, sem á 9,91% hlut í MP banka, vera áhugasamur um samruna bankanna.