Finnur Oddsson hefur verið ráðinn forstjóri Nýherja. Hann tekur við starfinu af Þórði Sverrissyni. Finnur hefur verið aðstoðarforstjóri Nýherja frá í fyrra. Hann var áður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Fram kemur í tilkynningu að Finnur tekur til starfa sem forstjóri Nýherja 1. september næstkomandi. Þórður mun verða stjórn og nýjum forstjóra til ráðgjafar næstu mánuði.

Haft er eftir Finni að það sé mjög spennandi að taka við stjórnartaumunum í Nýherja á þessum tímapunkti.

Finnur er með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A. og Ph.D gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum. Þá er hann með AMP í viðskiptafræði frá IESE á Spáni. Finnur starfaði um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði meðal annars uppbyggingu á MBA námi skólans.  Hann veitir nú háskólaráði HR formennsku. Áður starfaði Finnur við ráðgjafastörf hérlendis og erlendis á sviði frammistöðustjórnunar og stefnumótunar. Eiginkona Finns er Sigríður Þorgeirsdóttir, lögfræðingur og MBA, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs LOGOS.  Þau eiga tvo syni, Óttar og Dag.