Finnur Sveinbjörnsson, sem nú gegnir stöðu bankastjóra Arion banka, er einn þeirra sem sækjast eftir stöðu forstjóra hjá Valitor, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Finnur mun láta af störfum hjá Arion á næstu vikum en Höskuldur H. Ólafsson var nýverið ráðinn í starf hans.

Þó er talið víst að þeir muni starfa hlið við hlið fyrstu dagana. Höskuldur, sem byrjar hjá Arion í júní, var áður forstjóri Valitor, rekstraraðila Visa Ísland. Því gæti svo farið að þeir Finnur og Höskuldur skipti um starf.

Starf forstjóra hjá Valitor var auglýst til umsóknar um helgina og er umsóknarfrestur til og með 11. maí næstkomandi. Fyrirtækið er í eigu viðskiptabankanna, þar á meðal Arion banka.