Aðalfundur VBS fjárfestingarbanka samþykkti á föstudaginn heimild til að sótt verði um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins.

Þá var samþykkt að veita heimild til útgáfu nýs hlutafjár að upphæð 150 milljónir króna að nafnverði, meðal annars til að mæta fyrirhuguðum vexti og kaupum starfsmanna á bréfum í bankanum. Jón Þórisson, forstjóri VBS, segist í frétt félagsins gera ráð fyrir að gengið verði frá umsókn næstu daga og þá taki við meðferð og afgreiðsla Fjármálaeftirlitsins.

Á aðalfundinum var ný stjórn kjörin og hana skipa: Páll Magnússon, Finnur Sveinbjörnsson, Símon Sigurpálsson, Gunnar Árnason og Ólafur Elísson.

Finnur Sveinbjörnsson er nýr í stjórninni. Á stjórnarfundi að afloknum aðalfundi var Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Sunda, kjörinn formaður.