Finnur Sveinbjörnsson, fyrrverandi bankastjóri Icebank og ráðgjafi stjórnvalda í efnahagsmálum, segir að öfgakennd og móðursýkisleg umfjöllun um íslenskt efnahagslíf í erlendum fjölmiðlum sé á undanhaldi. Þar hafi samstillt átak skipt máli. Ágætlega hafi tekist að fræða og upplýsa áhrifaríka viðskiptafjölmiðla um íslenskan fjármálamarkað og efnahagslíf.

„Bankarnir sjálfir, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð hafa lagt mikið á sig," segir Finnur, „að ógleymdum forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem hafa talað á ráðstefnum og við fjöldann allan af viðskiptafjölmiðlum. Þá hefur Richard Portes, prófessor við London Business School reynst betri en enginn. Einnig tel ég að Kaupþing hafi gert rétt þegar bankinn hóf að siga lögfræðingum á fjölmiðla sem fóru með fleipur um bankann."

Stöðugt þurfi að vinna að kynningu landsins

Finnur segir að ekki megi þó slaka á klónni. Stöðugt þurfi að vinna að kynningu landsins og koma á framfæri staðreyndum og upplýsingum. Sjálfur hefur Finnur ráðið stjórnvöldum heilt, undanfarna mánuði, varðandi upplýsingamiðlun um íslenskt efnahagslíf. Hann segir að nú sjái fyrir endann á því verkefni.

Ekki er talið líklegt að það verk sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital, hafi verið ráðinn til af forsætisráðuneytinu skarist á við verksvið Finns.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum eftir kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .