Að sögn Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Nýja Kaupþings, er nafnbreyting eitt þeirra atriða sem stjórnendur bankans hafa verið að velta fyrir sér en málið var tekið til umræðu á stefnumótunarfundi bankans um síðustu helgi..

Finnur sagði að þetta hefði verið til umræðu nánast frá því að bankinn féll. Inn á þetta var komið á stefnumótunarfundi sem bankinn hélt með 750 starfsmönnum sínum um helgina.

Að sögn Finns hefur verið mælt í vinnustaðagreiningu tryggð starfsfólks við gamla Kaupþings nafnið sem bendir til þess að heppilegt geti verið að skipta um nafn.

„Við erum að skoða þetta mjög alvarlega, það er óhætt að segja það. Skilin milli gamla og nýja bankans eru óglögg á meðan sama nafnið er í notkun,” sagði Finnur.