Finnur Sveinbjörnsson, formaður skilanefndar Kaupþings hefur verið ráðinn forstjóri Nýja Kaupþings en bankinn var stofnaður um helgina.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kemur þetta fram í tölvupósti sem sendur hefur verið frá starfsmannasviði bankans á starfsmenn hins nýja banka.

Áður hefur Finnur starfað í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum en var síðast bankastjóri Sparisjóðabankans (áður Icebank) auk þess sem hann hefur verið ráðgjafi forsætisráðherra í efnahagsmálum.

Stjórnarformaður bráðabirgðastjórnar er Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri.

Aðrir stjórnarmenn eru Helga Óskarsdóttir, Einar Gunnarsson, Jónína Björg Bjarnadóttir og Sigurður Þórðarson.