Finnur Sveinbjörnsson lauk störfum fyrir Arion banka síðastliðinn þriðjudag. Þegar hann er spurður um hvað sé framundan hjá honum er svarið einfalt: Langþráð frí.

„Þegar því er lokið reikna ég með að fara í lausamennsku. Ég hef viðað að mér töluverðri reynslu í gegnum tíðina. Ég starfaði í opinbera geiranum lengi og svo á fjármálamarkaði í nokkuð mörg ár. Ég hef stýrt tiltölulega litlu fyrirtæki, sem var Kauphöllin. Ég hef stýrt smáum viðskiptabanka, sem var Sparisjóðabankinn. Núna hef ég stýrt einu af stærstu fyrirtækjum landsins, sem er Arion banki. Ég hef einnig setið í stjórnum fjölmargra félaga. Ég bý því yfir margvíslegri reynslu sem getur nýst víða. Svo sjáum við til hvort það sé ekki eftirspurn eftir starfskröftum mínum einhvers staðar.“

Þegar Finnur er inntur eftir nákvæmara svari segir hann að líklegast muni hann einbeita sér að ráðgjöf og stjórnarsetu. „Það er ljóst að krafa um óháða stjórnarmenn mun fara vaxandi sem og krafa um vandaða stjórnarhætti. Stjórnarstörfum mun verða gert hærra undir höfði og þeim gefin miklu meiri gaumur en áður. Það gæti því orðið mjög krefjandi að setjast í stjórnir ýmissa fyrirtækja.“

Ítarlegt viðtal er við Finn Sveinbjörnsson í nýjasta Viðskiptablaði.