Í viðtali við nýjasta Viðskiptablaðið segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, að gríðarleg hagræðing bíði í bankakerfinu. Hann segir óraunsætt að ætla að ríkið muni reka þrjá viðskiptabanka sem eru með útibúanet um allt land.

Finnur bendir á að þrátt fyrir gríðarlegan samdrátt í bankakerfinu sé það enn tiltölulega stórt, t.d. þegar litið er á samanlagðar eignir sem hlutfall af landsframleiðslu, fjölda bankamanna sem hlutfall af heildarmannfjölda eða fjölda íbúa á hvern afgreiðslustað. Þegar tekist er á við alls konar óráðsíu og sóun sem hefur viðgengist síðustu ár á mörgum sviðum þjóðfélagsins og þjóðin horfist í augu við breyttar efnahagsaðstæður, þá gefur augaleið að mikil hagræðing bíði í bankakerfinu.

"Ég held að það sé óraunsætt að ætla að ríkið muni reka þrjá viðskiptabanka sem eru með útibúanet um allt land auk þess að það verði kjölfestufjárfestir í sparisjóðskerfinu sem einnig er með afgreiðslustaði um allt land. Svona bankakerfi er algerlega óraunhæft og það hlýtur að verða einhvers konar uppstokkun á þessu kerfi. Þar við bætist að smærri lánafyrirtæki í einkaeigu munu trúlega eiga í erfiðleikum á næstunni að fjármagna sig og leggja því vaxandi áherslu á þóknanatengda starfsemi, þ.e. eignastýringu, einkabankaþjónustu, miðlun og fyrirtækjaráðgjöf. En þar eru fyrir á fleti nokkur smærri fyrirtæki nú þegar auk þess sem stóru bankarnir og sparisjóðirnir veita einnig þjónustu á þessum sviðum. Þarna verður án efa töluverð uppstokkun. Þá má ekki gleyma miðlægum og sérhæfðum þjónustufyrirtækjum á fjármálamarkaði í upplýsingatækni, greiðslumiðlun og kortastarfsemi. Það er verk að vinna að stokka þetta allt saman upp."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu