Finnur Pálmi Magnússon hefur tekið við sem framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Meniga. Finnur tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Helstu verkefni vöruþróunar Meniga eru að hlúa að framtíðarsýn fyrirtækisins, þróa notendaupplifun vörunnar ásamt því að tryggja áframhaldandi árangur með góðum samskiptum við önnur svið fyrirtækisins.

Áður gegndi Finnur starfi vörustjóra hjá Meniga. Þar tók hann virkan þátt í að byggja upp vöruþróun fyrirtækisins síðastliðin fimm ár. Finnur hefur vaxið frá því að sinna einstökum virknieiningum og viðskiptavinum, yfir í að þróa heildarsýn og notendaupplifun vörunnar. Finnur leiddi vinnu við þriðju kynslóð Meniga lausnarinnar, sem gefin var út í nóvember 2017, og vann til verðlauna á Íslensku vefverðlaununum fyrir besta app og besta veflausn.

Áður en Finnur kom til Meniga leiddi hann umfangsmikil verkefni í stafrænni þróun hérlendis sem og erlendis. Þar má helst nefna þróun á vefkerfum fyrir Icelandair og Símann, Sony Computer Entertainment, NokiaSiemens, Virgin og Woolworths. Finnur var einnig tæknistjóri Stjórnlagaráðs sem hlaut alþjóðaathygli fyrir nýstárlega nálgun og notkun tækni í sinni vinnu. Finnur hefur einnig verið virkur í grasrótarstarfi og tók þátt á að stofna Samtök Vefiðnaðarins (SVEF), Icelandic Gaming Industry og hefur unnið með stjórnsýslu í verkefnum tengdum opnum gögnum sem sendiherra Open Knowledge Foundation.

Síðastliðið ár var það besta í sögu Meniga og fyrirtækið heldur áfram að vaxa sem leiðandi samstarfsaðili banka í starfrænni þróun um allan heim. Fyrr á árinu tilkynnti Meniga samstarf og fjárfestingu frá bönkunum Swedbank og Unicredit.