Wal-Mart, stærsta smásölukeðja heims, birti í morgun uppgjörstölur fyrir fyrsta ársfjórðung. Hagnaðurinn nam 2,62 milljörðum dala eða 63 sentum á hlut sem er ívið meiri hagnaður en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir, væntingar greiningaraðla voru 61 sent á hlut samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Í frétt Hálffimm frétta KB banka kemur fram að hagnaður sama fjórðungs síðasta árs var 2,46 ma.USD og því er um 6% hækkun að ræða á milli ára. Hækkunina má rekja til aukinnar sölu og sterkrar birgðastöðu. Talsmaður Wal-Mart tók þó fram að hækkun eldsneytisverðs hefði neikvæð áhrif á sölutölur nú um stundir og gæti komið til með að hafa neikvæð áhrif á hagnað annars ársfjórðungs.