Í kjölfar þess hve vel hefur tekist til með hliðarmarkaðinn First North á Norðurlöndunum mun OMX útvíkka þjónustu First North þannig að hún nái einnig til Eystrasaltsríkjanna á árinu 2007. Þetta kemur fram í frétt Kauphallarinnar.

First North veitir vaxandi félögum greiðan aðgang að norrænum, baltneskum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum, og veitir auk þess fjárfestum fleiri fjárfestingartækifæri. First North er einn þeirra hliðarmarkaða sem eru í örustum vexti í Evrópu segir í fréttinni..

First North í Eystrasaltsríkjunum er hliðarmarkaður við aðalmarkað OMX með minni kröfur og einfaldara regluverk. Þetta er markaður sem lýtur kauphallarreglum og hentar smærri og vaxandi félögum á meðan þau eru í vexti. First North veitir félögum í Eystrasaltsríkjunum meiri sýnileika, auðveldar þeim aðgang að fjármagni og sameinar kosti þess að vera á almennum markaði og einfaldleika.

Allir aðilar að OMX-markaðnum í Tallinn, Ríga og Vilníus munu hafa aðgang að First North í Eystrasaltsríkjunum og því er um staðgóðan grundvöll fjárfesta að ræða. First North veitir fjárfestum fjölbreyttari fjárfestingarkosti sem kunna að hafa aukna áhættu í för með sér en geta einnig skilað meiri hagnaði. Fjárfesting á hliðarmarkaði kann því að krefjast ítarlegri greiningar og undirbúnings.

?Í gegnum First North auðveldum við félögum í vexti að afla fjármagns. Þetta styður við hagvöxt og skilar sér til alls svæðisins. Stækkun First North veitir fjárfestum aukin tækifæri til fjárfestinga. Smærri félög geta nýtt First North sem fyrstu skref í átt að aðalmörkuðum,? segir Jukka Ruuska, forstjóri OMX Nordic Exchange

Hvert og eitt félag á First North verður að hafa tiltekinn Certified Advisor (viðurkenndan ráðgjafa). Ráðgjafarnir fylgjast stöðugt með því að fyrirtækið hlíti reglum First North og eru milliliðir milli félags, kauphallar og fjárfesta. Listi yfir viðurkennda ráðgjafa verður birtur á heimasíðu First North og þar með geta félög valið sér ráðgjafa sem hentar þeim.

?Þetta er svar okkur við vaxandi kröfum markaðsaðila um fleiri fjárfestingarmöguleika á baltneska verðbréfamarkaðnum. Hvað varðar smá og meðalstór félög, þá verður First North frábær kostur til að afla fjármagns, auka sýnileika og viðurkenningu sem flýtir fyrir vexti fyrirtækisins. Með First North tekur OMX mikilvægt skref sem stuðlar að því að norræni og baltneski markaðurinn verður öflugri og samþættari og það kemur bæði innlendum og alþjóðlegum fjárfestum enn frekar til góða,? sagði Johan Rudén, forstjóri OMX markaðanna í Eystrasaltsríkjunum í tilkynningunni.

First North er hliðarmarkaður sem OMX kom á fót og nær nú þegar til Svíþjóðar (2006) Danmerkur (2005), Finnlands (2007) og Íslands (2007). Kauphallirnar í Tallinn, Ríga og Vilníus eru sem stendur að samræma reglur sínar og fyrir dyrum stendur að gera samninga við viðurkennda ráðgjafa og veita þeim þjálfun. Félög sem vilja fá aðild að First North þurfa fyrst af öllu að hafa samband við viðurkenndan ráðgjafa eða kauphöllina í viðkomandi landi. First North hefur starfsemi í Eystrasaltsríkjunum á árinu 2007.