Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi þess efnis að lífeyrissjóðum verði gert mögulegt að flokka hlutabréf á First North markaði sem skráð en ekki óskráð líkt og verið hefur. Markaðurinn yrði þannig aðgengilegri vettvangur fyrir fyrirtæki í vexti nái frumvarpið fram að ganga.

Flutningsmaður frumvarpsins er Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og er hann bjartsýnn á að frumvarpið nái í gegnum þingið í haust. „Frumvarpið er komið fram og það eru að bætast á það þingmenn. Það eru komnir fram meðflutningsmenn frá öllum flokkum nema Samfylkingunni og Pírötum. Ég held að þingmönnum lítist yfirleitt vel á þetta og stuðningur er mikill. Það var í rauninni grátlegt að það náðist ekki að ræða frumvarpið fyrir þinglok í vor en það verður gert núna.“

First North er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti og er tilgangur markaðarins að veita smærri og meðalstórum fyrirtækjum kost á að vera á markaði þar sem þau eiga ef til vill ekki möguleika á skráningu á aðalmarkað Norrænu kauphallarinnar. Nú er 161 fyrirtæki skráð á First North á Norðurlöndunum og flest þeirra eru skráð á sænska markaðnum eða 139 fyrirtæki. Íslensk fyrirtæki á markaðnum eru þrjú talsins en það eru Century Aluminum,Hampiðjan og Sláturfélag Suðurlands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .