Vinna nefndar fjármálaráðuneytis sem hefur til meðferðar sjónarmið þess efnis að rýmka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna í verðbréfum á svokölluðu markaðstorgi með fjármálagerninga, First North, er langt komin.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti er viðbúið að nefndin skili áliti sínu fljótlega. Frumvarp til laga um breytingu á starfsemi lífeyrissjóða var lagt fram þann 10. september síðastliðinn á Alþingi, en afgreiðslu þess var frestað þar til umrædd nefnd skilaði niðurstöðum sínum.

Flutningsmaður frumvarpsins er Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Tilgangur laganna er að veita lífeyrissjóðum víðtækari heimild til fjárfestinga í smærri fyrirtækjum en þeim sem eru skráð á aðalmarkað Kauphallar, sem þó uppfylla tiltekin skilyrði til skráningar á First North markaðstorgið.