Félag íslenskra stórkaupmanna telur bráðnauðsynlegt að hagstjórnaraðgerðir taki mið af því að örva efnahagslífið og hvetur því stjórnvöld til að skapa umhverfi sem er til þess fallið að örva einkaneyslu og eftirspurn að því er kemur fram í tilkynningu frá FÍS.

Aukin velta í efnahagslífinu er forsenda viðsnúnings og myndi skapa meiri skatttekjur. Aukin skattlagning og háir vextir eru hins vegar til þess eins fallin að draga úr veltu og hafa því lamandi áhrif. Lægri vextir og skattar hvetja að auki til nýsköpunar og skapa grundvöll vaxtar fyrir jafnt ný sem eldri fyrirtæki. Það skilar sér til almennings í hærra atvinnustigi og auknum kaupmætti segir í tilkynningu FÍS.