*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 27. október 2009 13:10

FÍS: Hækkun tryggingagjalds er skattlagning sem leggst þungt á verslun og þjónustu

Hið sama gildir með hækkun tekjskatts

Ritstjórn

Ástæða er til að árétta að frekari hækkun tryggingagjalds er skattlagning sem leggst þyngra á verslunar og þjónustufyrirtæki en annars konar fyrirtæki í landinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FÍS en þar kemur fram að í viðræðum  SA og ASÍ um stöðugleikasáttmála hefur verið rædd sú hugmynd að hækka beri tryggingagjald á öll atvinnufyrirtæki í stað fyrirhugaðra orkuskatta.

„Áætla má að a.m.k. 60% starfa í einkageiranum séu í verslunar og þjónustugreinum og því augljóst að frekari hækkun tryggingagjalds muni bitna hart á þessum geira,“ segir í tilkynningu FÍS.

„Þegar rætt er um hvort leggja eigi frekari álögur á verslun og þjónustu er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

Þær hækkanir sem þegar hafa orðið á tryggingagjaldi, beinum og óbeinum sköttum hafa þegar stuðlað að uppsögnum á vinnumarkaði og dregið úr eftirspurn.

Fyrirhugaðar hækkanir á tekjusköttum, virðisaukaskatti og óbeinum álögum á næsta ári draga úr kaupmætti og bitna einna harðast á fyrirtækjum í verslun og þjónustu.

Gengi krónunnar hefur verið gríðarlega veikt á undanförnum misserum og lítil von er til marktækrar styrkingar á næstunni. Innflutningsverslun á því undir högg að sækja og er enn að laga sig að breyttum aðstæðum með tilheyrandi launaaðlögunum og uppsögnum.

Ofangreint bitnar illa á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem skapa mikla atvinnu í verslun og þjónustu.“

FÍS segir ljóst að hugmyndir stjórnvalda um orkuskatta voru ófullburða þegar þær komu fram og stjórnvöld hafi réttilega verið gagnrýnd harðlega fyrir þannig vinnubrögð.

„FÍS telur mikilvægt að tryggja áframhaldandi áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

„Það eitt gefur þó ekki tilefni til að leggja ennþá meiri byrðar á verslun og þjónustu í landinu. Mikilvægt er að aðrar leiðir séu farnar til að brúa fjárlagahallann og má í því sambandi skoða skattlagningu inngreiðslu í lífeyrissjóði, a.m.k. að hluta.“

Þá segir FÍS að benda megi á að áætlað sé að launakostnaður ríkissjóðs minnki aðeins um 3% á næsta ári. Það sé í engu samræmi við þann veruleika sem aðrir atvinnurekendur á landinu búa við.

„Eðlilegt er að gera ríkari kröfu til hagræðingar í launakostnaði hins opinbera,“ segir í tilkynningunni.

„Minnt er á að FÍS hefur lagt fram efnahagstillögur þar sem fleiri lausnir eru reifaðar. FÍS telur mjög mikilvægt að standa vörð um stöðugleika á vinnumarkaði. Með það að leiðarljósi er félagið tilbúið að virða þegar gerða kjarasamninga – þrátt fyrir að fyrirheit stjórnvalda hafi í ýmsu brugðist. Hugmyndir um aukna skattbyrði á greinina eða á neytendur kunna þó að breyta þeirri afstöðu.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is