Félag íslenskra stórkaupmanna FÍS kynnti í morgun efnahagstillögur sínar. Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍS segir tillögurnar ekki síst settar fram til að skapa umræðugrundvöll til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Einnig geti þær verið innlegg um mögulegar leiðir til úrlausnar ef grundvelli verði kippt undan gildandi samkomulag um stöðugleika á vinnumarkaði.

FÍS telur mikilvægt að hagstjórn ríkisfjármála taki mið af því að örva fjárfestingu og koma atvinnulífinu á skrið á ný. Þess vegna beri að forðast skattahækkanir, enda hafi atvinnulífið og einstaklingarnir vart bolmagn til að taka slíkt á sig. Með skattahækkunum skapist hætta á enn frekari uppsögnum starfsfólks. Þess í stað leggur FÍS til að launakostnaður hins opinbera verði lækkaður um 10% líkt og gert hefur verið á almennum vinnumarkaði. Með því megi spara um 20-25 milljarða króna . Að auki verði hagrætt í rekstri fyrir um 50 milljarða króna.

Þá leggur FÍS til að ýmsum framlögum atvinnurekenda í sjóði launþega verði tímabundið ráðstafað beint til launþega, m.a. viðbótalífeyrisgreiðslum. Þannig megi hækka ráðstöfunartekjur launþega um 2-4% án þess að auka álögur á atvinnuvegina.

Í tillögum FÍS er líka lagt til að veittur verði skattaafsláttur til einstaklinga vegna kaupa á hlutafé í atvinnurekstri. Með því verði skapaður hvati til fjárfestinga í hlutafé til að auka tiltrú erlendra aðila og stuðla að enduruppbyggingu hlutabréfamarkaðar.

Þá er lagt til að innflutningsgjöld á fjárfestingavörum verði afnumin tímabundið til að hvetja til uppbyggingar. Einnig að heimilaðar verði flýtiafskriftir vegna fjárfestinga í fastafjármunum sem komi sérstaklega skuldlausum og litlum fyrirtækjum til góða.