Sama kvöld og Þjóðverjar voru burstaðir af Ítölum í undanúrslitum EM komst Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að því hver takmörk hennar eigin valds innan evrusvæðisins voru á leiðtogafundinum í Brussel. Stefna Þýskalands síðan evrukreppan hófst fyrir tveimur árum hafði skilið landið eftir einangrað og það átti sér ekki viðreisnar von gegn bandalagi Ítalíu, Spánar og Frakklands. Er þetta meðal þess sem Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, segir í grein, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Segir Fischer að í raun átti Merkel ekkert val nema gefa eftir og samþykkja víðtækar breytingar á hinu nýja fjárhagslega samstarfi ESB sem mun létta endurfjármögnun fyrir þau lönd sem lent hafa í kreppunni og bankastarfsemi þeirra. „Þýska trúarsetningin um „engar greiðslur án bættrar frammistöðu og stjórnar“ var slegin af borðinu, og samkomulagið sem gert var í bláa bítið var algjör andstaða þess sem hún vildi. Grunnur hins nýja fjármálasambands var orðinn að rústum jafnvel áður en þýska sambandsþingið samþykkti það seinna um daginn.“ Segir hann að samkomulagið í Brussel bjóði ekki upp á neina áætlun til að sigrast á kreppunni í Suður-Evrópu sem þýðir að ógnin við evrusvæðið er enn til staðar.

Pólitísk vænisýki

Segir Fischer að ósigur Þýskalands, sama hversu víða honum er fagnað, feli í sér ýmis áhyggjuefni. „Í fyrsta lagi er ekki allt sem Þjóðverjar héldu fram rangt: hin brýna þörf á styrkingu fjármálakerfisins til lengri tíma og þörfin á kerfisbreytingum til þess að gera kreppulöndin samkeppnishæfari mun ekki hverfa. Jafn mikilvægt er hins vegar að minnka efnahagslegt ójafnvægi og auka samræmi í stefnu sambandsins svo hægt sé að efla hagvöxt.“ Þá segir hann að pólitísk vænisýki að færast í aukana á hægri væng þýskra stjórnmála. „Sagt er að allir vilji bara peninga Þýskalands, hið raunverulega markmið Breta sé að veikja okkur; og að fjármálamarkaðirnir munu ekki vera í rónni fyrr en allur auður Þýskalands hefur verið fjárfestur erlendis og hagsæld landsins til framtíðar þannig stefnt í hættu. Stjórnarandstaðan er að „svíkja Þýskaland í hendur útlendinga“ og „góðu“ fjármagni í framleiðni er stillt upp á móti „slæmu“ fjármagni spákaupmennsku. Orðið hefur vart við and-kapítalisma í gamalkunnu formi á viðhorfssíðum sumra þýskra dagblaða sem felur í sér hvorki meira né minna en höfnun á Evrópu og jafnvel Vesturlöndum.“