Fischer-safnið, sem stofnað hefur verið til minningar um skákmanninn Bobby Fischer, verður opnað á morgun á Selfossi. Fyrst verður sérstök opnun fyrir boðsgesti, en í kjölfarið verður opnað fyrir almenning. Safnið er í húsi gamla bankans við Austurveg 21.

Fischer hvílir í kirkjugarðinum í Laugardælum í grennd við Selfoss. Á safninu verða munir til sýnis úr einvígi aldarinnar í Reykjavík 1972, eða fyrir 40 árum þegar þeir Bobby Fischer og Boris Spassky tefldu.

En þarna verður einnig aðstaða fyrir skákmenn almennt. Björgvin Smári Guðmundsson, formaður Skákfélags Selfoss og nágrennis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið verði þarna með aðstöðu. „Þarna verða skákviðburðir og annað slíkt. Þetta verður flott aðstaða fyrir okkur,“ segir hann.