Rekstur Fish & chips vagnsins hófst í Vesturbugt við Reykjavíkurhöfn núna um helgina. Þar með rættist draumur eigendanna, sem á sínum tíma bjuggu í Bretlandi, seldu íslenskan fisk til fish & chips veitingastaða og voru þar fastagestir sjálfir. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Nú er í fyrsta sinn á Íslandi hægt að fá þjóðarrétt Breta, „fisk og franskar“, nákvæmlega matbúinn eins og hefð þeirra mælir fyrir um og afgreiddan í færanlegum veitingavagni sem hannaður var á Íslandi en smíðaður í Bretlandi.

Hráefnið er fyrsta flokks sjófrystur þorskur, sem togarinn Arnar frá Skagaströnd færir að landi. Annað tilheyrandi matargerðinni er flutt inn frá Bretlandi: efni í fiskhjúp, steikarfeiti, franskar kartöflur, baunastappa, maltedik og fleira.

Fish & chips vagninn verður í Vesturbugt (á milli gamla slippsins og sjóminjasafnsins) á daginn frá kl. 11 til 21 en á Lækjartorgi frá kl. 22 fram á nótt. Hægt er að borða matinn á staðnum eða taka með sér í bílinn.

Stofnendur og eigendur Fish and chips vagnsins eru þrír félagar sem störfuðu allir á sama tíma við að markaðssetja og selja íslenskan fisk í Hull, ásamt fjölskyldum sínum: Benedikt Sveinsson, Höskuldur Ásgeirsson og Pétur Björnsson. Benedikt var forstjóri og Höskuldur framkvæmdastjóri Iceland Seafood en Pétur rak eigið fisksölufyrirtæki, Ísberg.

Hilmar B. Jónsson matreiðslumeistari var eigendum vagnsins innan handar við undirbúning og fyrstu skref sjálfrar starfseminnar. Þeir Höskuldur fóru til Bretlands og lærðu réttu handtökin við matseldina hjá landssamtökum fish & chips veitingastaðanna í Bretlandi (National Federation of Fish Friers). Íslenski Fish & chips vagninn var jafnframt tekinn inn í samtökin og þau aðstoða við rekstur þessa breska matarmenningarsprota á Íslandi.

Fish & chips er sannkallaður þjóðarréttur Breta og er í sókn á markaði þeirra frekar en hitt. Fæstir Íslendingar gera sér líklega grein fyrir því að hráefnið er íslenskt að stórum hluta. Þetta er hvorki meira né minna en stærsti einstaki markaður veraldar fyrir þorsk og ýsu frá Íslandi.

Ætla má að árlega séu notuð séu um 70.000 tonn af fiskflökum í „fisk & franskar“ á Bretlandseyjum.