Fisherman á Suðureyri, sem rekur hótel, sjávarveitingahús og kaffihús og aðra ferðaþjónustu á Suðureyri, hyggst opna verslun í vesturbæ Reykjavíkur.

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman segir fyrirtækið stefna að markaðssetningu á heildstæðri vörulínu sem koma í verslanir Hagkaupa í byrjun júni að því er fram kemur í Vísi .

Við hlið Ísbúðar Vesturbæjar

„Við vorum að leita að húsnæði til að pakka og þjónusta Hagkaup daglega með ferskar vörur og duttum þá niður á virkilega skemmtilegt húsnæði við Hagamel 67,“ segir Elías, en um er að ræða húsnæði í sama verslunarkjarna og Ísbúð Vesturbæjar sem margir þekkja, stutt frá Sundlaug Vesturbæjar.

„Við sáum strax að þar væri lítið mál að bæta við eigin verslun með einfalda og skemmtilega fiskrétti.

Þar stefnum við á að bjóða upp á þekkta smárétti úr „world culinary„ tengt fiski. Bláskel, fiskisúpur, tacos, rækjur, próteinrík snakkbox með fiski, tilbúna rétti til að borða á staðnum eða til að taka með heim og fleira skemmtilegt til að grípa með sér á hraðferð.“

Fisherman var stofnað á Suðureyri árið 2000 en undanfarin ár hefur fyrirtækið tekið við þúsundum gesta í sælkeraferðum um sjávarþorpið þar sem lögð er áhersla á daglega lífið í bænum.