FISK Seafood eignarhaldsfélag ehf., útgerðarfélag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefur gengið frá kaupum á 185,5 milljón hlutum í Brim hf., sem áður hét HB Grandi .

Þar með hefur félagið eignast 10,18% í útgerðarfélaginu, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur FISK keypt alla hluti lífeyrissjóðsins Gildi í Brim, en þessi viðskipti nú eru til viðbótar við þau. Kom sú ákvörðun í kjölfar þess að sjóðurinn hugðist kjósa gegn kaupum Brim á sölufélögum í eigu ÚR (sem hét áður Brim), eigenda um þriðjungshlutar í Brim.

Kaupverð hlutanna sem færir eignarhald Fisk í Brim upp í 10,18%, var á 36 krónur hvern hlut, en heildarviðskiptin sem núna fóru fram voru á 34 milljón hlutum, eða fyrir ríflega 1,2 milljarða króna. Eftir kaup Fisk á hlutum Gildis fyrr í vikunni nam heildarhluturinn 8,31%, en eftir þau viðskipti átti Gildi enn um 3,6 milljón hluti eða 0,2%.

Heildarverðmæti eignarhluta Fisk í Brim nú nemur tæplega 6,7 milljörðum króna miðað við gengi bréfa félagsins þegar þetta er skrifað eða 36 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma keypti FISK hlut Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim í Vinnslustöðinni í kjölfar kaupa Guðmundar í gegnum félagið sem þá hét Brim á hlutum Hvals hf. og tengdra félaga í HB Granda eins og félagið hét þá.

Fleiri fréttir um málefni HB Granda og Brim: