Í októbermánuði nam fiskafli íslenskra skipa rúmum 81 þúsund tonnum en á sama tíma í fyrra nam hann rétt rúmlega 72 þúsund tonnum, sem nemur um 13% aukningu.

Metinn á föstu verðlagi var hann 2,9% meiri í október í ár en í fyrra er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar .

Dróst botnfiskaflinn saman um 2% milli áranna, en hann nam rúmum 40 þúsund tonnum í mánuðinum. Var aukning í þorskafla á milli áranna en samdráttur í öðrum botnfisktegundum.

Uppsjávaraflinn var hins vegar 40% meiri en í október 2015, eða tæp 39 þúsund tonn, en uppistaðan í uppsjávaraflanum var síldin og veiddust rúm 32 þúsund tonn af henni. Í október árið 2015 veiddust tæp 23 þúsund tonn.

Heildarafli yfir árið hefur þó dregist saman

Ef horft er á heildartímabilið frá nóvember 2015 til október 2016 hefur þó heildaraflinn dregist saman um 232 þúsund tonn.

Minnkaði aflinn úr 1,3 milljónum tonna í tæp 1,1 milljón tonn eða um 18%. Jókst botnfiskaflinn á tímabilinu um 11% en samdrátturinn í heildarafla skýrist nær eingöngu af minni loðnuafla.