Heildarafli íslenskra skipa í maí, metinn á föstu verðlagi, var um 14,5% meiri en í sama mánuði í fyrra. Aflinn í maí nam tæpum 179 þúsund tonnum samanborið við tæp 142 þúsund tonn í fyrra. Ef litið er til fyrstu fimm mánaða ársins, hefur aflinn aukist um 9,6% á milli ára á föstu verðlagi, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

"Á fyrstu fimm mánuðum ársins var aflinn rúm 652 þús. tonn samanborið við rúm 1.012 þús. tonn í fyrra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjustu aflatölum Hagstofunnar," segir greiningardeildin.

Þá jókst botnfiskaflinn um hátt í 10 þúsund tonn á milli maímánaða, að sögn greiningardeildarinnar og uppsjávaraflinn um tæp 28 þúsund tonn. Mesti samdrátturinn var í síldarafla eða um rúm 6 þúsund tonn.