Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum októbermánuði var 2% meiri en í október 2006, sé hann metinn á föstu verði. Á vef Hagstofu Íslands segir að það sem af er árinu hafi fiskaflinn dregist saman um 5% á föstu verði miðað við sama tímabil 2006.

Afli í tonnum
Samkvæmt tölum hagstofunnar nam aflinn alls 98.264 tonnum í október 2007 samanborið við 90.278 tonn í október 2006.

Botnfiskafli dróst saman um 2.800 tonn frá októbermánuði 2006 og nam 36.500 tonnum. Þorskafli dróst saman um rúmlega 3.600 tonn og karfaaflinn um rúm 800 tonn. Ýsuaflinn jókst um tæplega 3.100 tonn en  ufsaaflinn var nánast óbreyttur.

Flatfiskaflinn dróst saman um 180 tonn milli ára. Afli uppsjávartegunda nam tæpum 59.700 tonnum sem að stærstum hluta var síld. Aukning í uppsjávarafla nemur rúmum 10.600 tonnum frá októbermánuði 2006. Skel- og krabbadýraafli var 680 tonn samanborið við 350 tonna afla í október 2006.