Afli íslenskra skipa minnkaði um 49,5% í tonnum talið í júlí, miðað við sama mánuð í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Aflinn nam 86,7 þúsund tonnum en var 171,7 þúsund tonn í júlí árið 2004. Aflinn í júlí er því tæplega 85 þúsund tonnum minni en á sama tíma í fyrra.

Helstu skýringarnar á samdrættinum eru mun minni kolmunnaafli, auk þess sem engin loðnuveiði átti sér stað í júlí í ár. Hagstofan segir aflaverðmætið, á föstu verði, hafa dregist saman um 27,5% á tímabilinu.

Botnfiskafli var rúm 30,4 þúsund tonn samanborið við 38 þúsund tonn í júlí í fyrra og dróst því saman um 7,6 þúsund tonn á milli ára. Þorskafli var 8,8 þúsund tonn en 11,4 þúsund tonn veiddust í júlí 2004. Af ýsu bárust á land tæp 4,5 þúsund tonn en í fyrra nam aflinn 3,8 þúsund tonnum. Úthafskarfaaflinn var 4,2 þúsund tonn í ár en yfir 13,7 þúsund tonn í fyrra og er það samdráttur um 9,5 þúsund tonn frá júlí í fyrra.