Heildarafli íslenskra fiskiskipa var tæp 74 þúsund tonn í janúar, sem er 20% minni afli en í janúar 2015. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem voru birtar nú í morgun.

Mest munar um loðnu, þar sem aflamagnið var um 1.500 tonn samanborið við 45 þúsund tonn í sama mánuði í fyrra. Afli kolmunna jókst hinsvegar mikið mili ára, hann var 29 þúsund tonn nú en var 10 þúsund tonn í janúar 2015. Afli botnfisktegunda nam rúmum 35 þúsund tonnum í janúar sem er aukning um 10%, þar af var af þorskaflinn rúm 23 þúsund tonn sem er 30% meira en í janúar 2015.

Aflinn í janúar metinn á föstu verði var 6,3% minni en í janúar 2015.