Fiskavirking, félag í eigu Samherja, Framherja og Varðin í Götu, hefur eignast fjórar fiskvinnslustöðvar og sex togara sem áður voru í eigu Faroe Seafood, stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Færeyja en fyrirtækið varð gjaldþrota fyrir áramót. Frá þessu greinir Rúv og vitnar í færeyska vefmiðilinn Portalurin.

Viðskiptablaðið greindi frá því 13. nóvember sl. að Samherji og Framherji ættu í viðræðum um kaup á helmingshlut í Faroe Seafood. Þar kemur fram að fyrirtækið hafi átt sjö fiskvinnslustöðvar og að það hafi lent í vandræðum í kjölfar þess að Eik banki lenti í lausafjárvanda sl. haust.

Kaupverð er ekki gefið upp en Portalurin hefur eftir framkvæmdastjóra Framherja, sem er færeyskt sjávarútvegsfyrirtæki og að hluta til í eigu Samherja, að Fiskavirking muni taka við eignunum á mánudag.