Alls voru 1.647 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2016 og hafði þeim fækkað um 16 frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var alls 747 og samanlögð stærð þerra um 94.506 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 9 á milli ára en stærð flotans jókst um 2.439 brúttótonn. Togarar voru alls 43 og fækkaði um þrjá frá árinu á undan. Heildarstærð togaraflotans var 52.416 brúttótonn og hefur minnkað um 904 tonn frá árslokum 2015. Opnir fiskibátar voru 857 og 4244 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fækkaði um tvo á milli ára og samanlögð stærð minnkaði um 1 brúttótonn. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands .

Flest fiskiskip á Vestfjörðum

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2016, alls 396 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 294 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,8%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 80 alls, en það samsvarar 4,9% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 232, og á Vesturlandi 167. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 23. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 160, en fæst á Höfuðborgarsvæðinu, 44 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra, alls 9, en 8 togarar á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.

Einnig er fjallað um málið á vef Fiskifrétta .