Fiskistofa hefur ákveðið að afturkalla úrskurð sem kveðinn var upp þann 19. júlí síðastliðinn þegar lagt var á Saltver ehf, sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Tildrög þessa úrskurðar voru þau, að þann 1. apríl 2011, hóf Fiskistofa rannsókn á magni aðfanga og afurða hjá Saltveri ehf. Á vef Fiskistofu segir að þau gögn sem Fiskistofa aflaði vegna rannsóknarinnar hafi verið talin benda til þess að unnið hefði verið úr óskráðum afla.

Saltver ehf. kærði umræddan úrskurð til úrskurðarnefndar. Eftir að málinu var vísað til úrskurðarnefndar tók Fiskistofa til sérstakrar skoðunar þær athugasemdir sem lögmaður Saltvers ehf. setti fram í kæru. Jafnframt hefur Fiskistofa tekið til skoðunar almennt verklag í málum sem þessum, þ.e. svokölluðum bakreikningsmálum.

Fiskistofa komst að þeirri niðurstöðu, með tilliti til athugasemda Saltvers ehf, og atvika máls að öðru leyti, að nýtingarprufa sem Fiskistofa gerði hjá Saltveri ehf gæfi ekki nægilega nákvæma mynd af meðalnýtingu hjá fyrirtækinu. Af þeim sökum ákvað Fiskistofa  að afturkalla úrskurð sinn um álagningu gjalds á Saltver ehf.

Fyrirtækinu var tilkynnt um þessi málalok með bréfi dagsettu 19. nóvember síðastliðinn og í framhaldi af því var áður álagt gjald endurgreitt.