Starfsmenn Fiskistofu hafa sent frá sér tilkynningu þar sem breytingum sem nýlega voru gerðar á lögum um Stjórnarráð Íslands er harðlega mótmælt. Fyrst og fremst gagnrýna starfsmenn það ákvæði þar sem fram kemur að ráðherra hafi óhefta heimild til flutnings á aðsetri ríkisstofnanna.

Setur Fiskistofa sig á móti því að ákveðið „skýrsluákvæði“, sem segir að ráðherra þurfi að gefa Alþingi skýrslu áður en hann nýtir valdheimild sína um flutning stofnana, tekur ekki gildi fyrr en 1. september næstkomandi.

„Það þýðir að ráðherra kann að álykta að hann geti farið óhindrað fram í flutningi Fiskistofu til Akureyrar, innan þess tíma, taki hann ákvörðun þar um,“ segir í tilkynningunni.

Ráðherra hefur með bréfi til starfsmanna Fiskistofu  13. maí sl. sagt:

„Aðrir núverandi starfsmenn stofnunarinnar [aðrir en fiskistofustjóri] sem starfa á höfuðborgarsvæðinu hafa val um starfsstöð milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins.“

Segir Fiskistofa að vandséð sé hvernig starfsemi stofnunarinnar verði háttað taki ráðherra ákvörðun um flutning hennar til Akureyrar ef flest allir núverandi starfsmenn starfa áfram á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmenn Fiskistofu skora á ráðherra að hverfa alfarið frá áformum sínum um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu.