Fiskkaupendum hefur fækkað verulega að því er fram kom í erindi Arnars Sigurmundssonar, formanns Samtaka fiskvinnslustöðva, á aðalfundi SF nýlega, og Fiskifréttir greina frá.

Fiskkaupendum fækkaði mikið bæði milli áranna 2009 og 2010 og þegar horft er lengra aftur, eða til ársins 2001.

Í heild voru 159 fiskkaupendur á árinu 2009 sem keyptu að lágmarki 100 tonn af fiski til vinnslu en fjöldi þeirra var kominn niður í 125 árið eftir, sem er 21% fækkun. Árið 2009 keyptu 36 aðilar 5 þúsund tonn af fiski eða meir til vinnslu en þeim hafði fækkað niður í 22 árið 2010, sem er 42% fækkun.

Ef farið er aftur til ársins 2001 þá má sjá að fiskverkendum alls hefur fækkað úr 247 niður í 125, eða um tæp 50%, á tíu ára tímabili.