Íslenskur veitingastaður komst á lista Condé Nast Traveler Hot List Tables fyrir árið 2008 og eru það Hrefna Rósa Sætran og félagar á Fiskimarkaðinum sem komust á listann þetta árið.

Fulltrúar frá Condé Nest heimsóttu yfir 32 lönd þar sem þeir snæddu nokkur hundruð máltíðir á yfir annað hundrað stöðum víðs vegar um heiminn. Mikill heiður er að komast á þennan lista þar sem margir styðjast við ferðaráðleggingar frá Condé Nest áður en haldið er út í heim.

Alls náðu 105 staðir inn á listann en þetta er í þriðja sinn sem íslenskur staður ratar inn á þennan lista. Árið 2004 var það Sjávarkjallarinn og árið 2007 komst Silfur þar inn. Auk þess er að finna veitingastaðinn Texture í London á listanum en sá staður er rekinn af Agnari Sverrissyni.

Listann má sjá í heild sinni á www.concierge.com .