Sigurður Gísli Björnsson, framkvæmdastjóri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks er grunaður um undanskot frá skatti fyrir hundruð milljóna króna og var gerð húsleit hjá honum skömmu fyrir áramót að því er Fréttablaðið greinir frá.

Voru á sama tíma eignir hans kyrrsettar og lagt hald á bankareikninga, en mál hans hafa verið í rannsókn frá því að gögn láku í hinum svokallaða Panama-leka. Stofnaði hann félagið Freezing Point Corp í Panama árið 2009.

Fjárfestingarfélagið Óskabein, sem á til dæmis stóran hlut í VÍS og keypti stóran hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Endor eins og Viðskiptablaðið sagði frá er að hluta til í hans eigu.

Fyrirtæki Sigurðar, Sæmark í Hafnarfirði, skilaði á árinu 2016 29 milljón króna hagnaði af 7,8 milljarða tekjum. Eigið fé félagsins er 520 milljónir króna.